HVERS VEGNA EDUCHANGE?

Ákvörðun um að fara í háskóla er að miklu leyti háð félagslegum bakgrunni nemenda: ef foreldrar hafa þegar lokið við háskólanám eru miklar líkur á að ungmenni fari einnig í háskólanám. Ef foreldrar hafa aftur á móti ekki háskólapróf eru umtalsvert minni líkur á að ungmennin hefji nám á háskólastigi. Margar ástæður liggja að baki: ungmenni skortir oft vitneskju um námskröfur, möguleika til fjármögnunar eða námsframboð, þau eru ekki meðvituð um eigin styrkleika eða vita ekki hvar byrja eigi þegar kemur að skipulagningu náms.  

Með hliðsjón af þessu rannsakar EDUCHANGE leiðir til að draga úr félagslegum ójöfnuði við umskiptin frá framhaldsskólastigi til háskólastigs. Í rannsókninni er sjónum beint að mögulegum áhrifum fræðslu og upplýsingagjafar ásamt náms- og starfsráðgjöf á ákvarðanir sem tengjast menntun og námi. Með þessu mun EDUCHANGE ekki aðeins marka mikilvægar framfarir í rannsóknum á ójöfnuði á sviði menntamála, heldur einnig upplýsa stjórnvöld og stefnumótandi aðila um viðeigandi aðgerðir til að draga úr misrétti í menntakerfinu. 

Velgengni EDUCHANGE byggist ekki aðeins á þátttöku skóla í rannsókninni, heldur fyrst og fremst á nemendum, með samþykki foreldra og forráðamanna þeirra. Af þeirri ástæðu óskum við eftir þátttöku ykkar og veitum upplýsingar um innihald og framkvæmd  rannsóknarinnar hér fyrir neðan.  

HVAÐ ER EDUCHANGE? 

EDUCHANGE er umfangsmikið rannsóknarverkefni sem styrkt er af Evrópska rannsóknarráðinu (ERC). Rannsóknin hefur það að markmiði að draga úr félagslegum ójöfnuði í menntun og verður framkvæmd samtímis í fjórum Evrópulöndum (Danmörku, Þýskalandi, Ungverjalandi, Íslandi). Kjarninn í rannsókninni er tilraun sem byggir á svokölluðu inngripi í nemendahópnum.  Inngripið felst í að færa nemendum upplýsingar um störf og starfshorfur fyrir mismunandi námsval, sýna þeim myndbönd þar sem háskólanemar deila reynslu sinni af því að hafa verið fyrstir í sinni fjölskyldu til að fara í háskóla, auk náms-  og starfsráðgjafar bæði í hóp og í einstaklingsviðtölum. Til þess að hægt sé að fullyrða um áhrif inngrips mun tilraunin samanstanda af inngripshópi annars vegar og samanburðarhópi hins vegar en tilviljun stýrir því í hvorum hópnum nemendur lenda. Með þessu er hægt að  skera úr um hvort inngripið hafi áhrif eða ekki. EDUCHANGE hefur áhuga á því hlutverki sem inngripið í heild kann að hafa á ákvarðanir um nám eftir framhaldsskóla.  

Alþjóðlegur samanburður innan rannsóknarinnar mun varpa ljósi á möguleg áhrif ólíkra skólakerfi á það hvort upplýsingagjöf og náms- og starfsráðgjöf geti hjálpað við að draga úr félagslegu misrétti við námsákvarðanir.   

HVERNIG FER RANNSÓKNIN FRAM? 

Rannsóknarverkefnið EDUCHANGE fer fram veturinn 2024-2025 í framhaldsskólum víðs vegar um Danmörku, Þýskaland, Ungverjaland og Ísland.  Leitast verður eftir þátttöku allra íslenskra framhaldsskóla sem útskrifa nemendur með stúdentspróf.  

Óskað verður eftir því að inngripinu sjálfu verði stýrt af náms- og starfsráðgjöfum innan skólanna og fari fram á meðal nemenda sem er á lokaári til stúdentsprófs. Lengd inngripsins miðast við eina 40 mínútna kennslustund. Í inngripinu munu nemendur frá yfirgripsmiklar upplýsingar um ýmsar námsleiðir sem útskriftarnemum stendur til boða, um ólíkar atvinnugreinar og atvinnuhorfur, kostnað, námsstyrki og inntökuskilyrði skóla. Nemendur munu horfa á myndbönd þar sem háskólanemar lýsa því hvernig þeir yfirstigu ýmsar áskoranir í námi sínu og í framhaldinu mun náms- og starfsráðgjafi ræða viðfangsefnið við nemendahópinn og svara spurningum. Í kjölfar inngripsins verða völdum nemendum, sem eiga foreldra án háskólamenntunar, auk þess boðin einstaklingsráðgjöf.   

Inngripinu fylgja þrjár spurningakannanir. Í fyrstu könnuninni, sem fer fram um það bil þremur vikum fyrir inngripið, er grunnupplýsingum safnað og nemendur spurðir út í framtíðaráætlanir í tengslum við menntun og starf. Fyrsta könnunin tekur 10-15 mínútur að svara. Önnur könnunin fer fram á sama tíma og inngripið og mun aðeins taka um 5 mínútur. Þriðja könnunin fer svo fram eins skömmu fyrir útskrift og unnt er en hún mun sömuleiðis vera stutt, eða um 10 mínútur.  

HVAÐ ÞARF SKÓLINN OKKAR AÐ GERA? 

Við stefnum að því að halda fyrirhöfn skóla í lágmarki. Hins vegar treystum við á stuðning skóla við skipulagningu og fyrirlögn inngripsins og spurningakannana. Meginframlag skólans eru þær 40 mínútur sem það tekur að leggja inngripið fyrir á skólatíma þar sem við óskum eftir samstarfi við náms- og starfsráðgjafa skólans þar sem því verðu komið við. Sömuleiðis óskum við eftir aðstoð við fyrirlöng stuttra, rafrænna spurningakannana á tveimur tímapunktum til viðbótar. 

Spurningarnar í könnuninni eru ekki viðkvæmar í eðli sínu. Ef nemendur upplifa hins vegar óþægindi eða hafa spurninga eftir að hafa lokið við könnunina, ættu þeir að geta haft samband við tilnefndan starfsmann í sínum skóla.  

HVER ER ÁVINNINGUR SKÓLANNA AF ÞÁTTTÖKU Í RANNSÓKNINNI?  

Með þátttöku fá nemendur í inngripshópnum vandaðar upplýsingar, ráðleggingar og náms- og starfsráðgjöf. Við erum þess fullviss að þeir nemendur sem taka þátt í inngripi rannsóknarinnar og fá meðfylgjandi ráðgjöf muni njóta verulegs ávinnings. Enn fremur geta allir skólar sem taka þátt óskað eftir skýrslu með helstu niðurstöðum skólans sem settar verði í samhengi við niðurstöður annarra þátttökuskóla. Að rannsókn lokinni mun verkefnateymið skipuleggja rafræna vinnustofu fyrir skólana þar sem helstu niðurstöður og möguleg áhrif inngripsins verða kynnt.  

FRJÁLS ÞÁTTTAKA OG NAFNLEYND 

Séð verður til þess að allar upplýsingar sem safnað er í rannsókninni séu gerðar ópersónugreinanlegar, þannig að ekki sé hægt að rekja þær til einstakra nemenda eða skóla. 

Þátttaka í rannsókninni er að sjálfsögðu frjáls. Allir nemendur geta hætt þátttöku hvenær sem er án þess að tilgreina ástæður, t.d. með því að láta kennara eða náms- og starfsráðgjafa vita og ber hvorki skylda til að svara einstökum spurningum eða könnuninni í heild. Að auki geta bæði nemendur og foreldrar eða forráðamenn hætt við þátttöku í rannsóknarverkefninu hvenær sem er án skilyrða, með því að senda tölvupóst á eftirfarandi netfang:  

educhange@hi.is 

REGLUR UM PERSÓNUVERND 

Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál en við söfnun þeirra, vinnslu og geymslu verður farið með öllu eftir skilyrðum Persónuverndarlaga nr. 90/2018. Rannsóknarverkefnið er styrkt af Evrópska rannsóknarráðinu (ERC) og hefur verið yfirfarið af Siðanefnd háskólanna um vísindarannsóknir. Ef einhverjar spurningar um persónuvernd og trúnað vakna má hafa samband við Magnús Jökul Sigurjónsson, persónuverndarfulltrúa Háskóla Íslands:  

mjs@hi.is 

TENGILIÐIR EF SPURNINGAR VAKNA 

Fyrir frekari upplýsingar um þátttöku þíns skóla má senda tölvupóst á netfangið educhange@hi.is. Upplýsingar um einstaka þátttökuland má finna á undirsíðum sem tilheyra hverju þátttökulandi með því að smella á fána viðkomandi lands, efst í hægra horninu á þessari síðu. 

Rannsóknarstjóri á Íslandi 

Prof. Dr. David Reimer 
Háskóli Íslands 
T
ölvupóstur: reimer@hi.is  
Heimasíða: https://www.hi.is/starfsfolk/reimer 

Verkefnastjóri á Íslandi 

Heiður Hrund Jónsdóttir 
Háskóli Íslands 
Tölvupóstur: hhj@hi.is  
Heimasíða: https://www.hi.is/starfsfolk/hhj